24.6.07

Ég var bara að snýta mér!

Ég sturtaði símanum mínum niður áðan...

Allt í lagi, margur heldur eflaust að ég hafi loks tekið meðvitaða ákvörðun um að losa mig við friðarspillinn í mínu lífi en nei...þetta er ekki alveg svona einfalt.

Þetta hófst allt á því að mig klæjaði í vinstri nasarholu sem er yfirleitt ekki frásagnarvert.
Nú allavega ég skondraði kát og glöð inn á bað, tók mér klósettpappír í hönd og gerði það sem góðri dömu sæmir, blés ,,klæjinu,, út. Þegar því var lokið sturtaði ég niður áður en ég henti pappírnum ofan í salernið og viti menn...síminn ( sem á þessari stundu var í hægri vasa kjólsins sem ég var í ) hoppaði, frelsinu feginn, upp úr vasanum og ofan í salernisskálina!

Með snýtipappír í hönd, bograndi yfir klósettið horfði ég með skelfingarsvip á símann hverfa í vatnsbununa. Um hug minn flögruðu ófagrar hugsanir...

- Hann ( síminn ) vill ekki vera með mér þar sem ég er búin að tala svo illa um hann.
- Hann ( síminn ) mun nú sitja á hafsbotni aleinn og yfirgefinn til eilífðarnóns, mengun af völdum
Berglindar.
- Nú getur enginn hringt í mig og ég búin að týna öllum mikilvægustu símanúmerunum í lífi
mínu.
- Nú er stigagjöfin mín í Galaxy leiknum týnd og tröllum gefin.
- Nú þarf ég að kaupa mér nýjan síma...sem er jú ágætt þar sem þessi sími var svo leiðinlegur.

En þegar sturteríinu var lokið sá ég hvar síminn lá eins og fögur svört aða á botni skálarinnar.
Honum hafði ekki tekist að strjúka frá mér, mér hafði ekki ómeðvitað tekist að losa mig við hann. Ég vippaði honum upp úr vatnssullinu, tók hann í sundur og lagði partana á hillu. Og þar liggur hann núna til þerris líkt og blautur líkami í sólbaði örugglega rígmontinn í sinni fyrstu hvíld frá því ég keypti hann.

Hvaða lærdóm er hægt að draga af þessari lífsreynslusögu?

Jújú... Í fyrsta lagi, ef þú hendir síma í klósettið og sturtar niður þá fer hann ekki út á haf.
Í öðru lagi, símar, líkt eins og mannfólkið, þurfa sína hvíldardaga. Ef símaeigendur neita
þeim um slíka hvíld þá munu þeir gera hvað sem er til þess að öðlast þá.
Í þriðja lagi, Maður á aldrei...ALDREI að henda einu litlu snýtubréfi í klósettið og sturta
því svo niður. Það er óumhverfisvænt og eyðsla á vatni. Heldur skal maður henda slíku
bréfi einfaldlega í
RUSLIÐ!