6.3.07

Ímyndum okkur hinn fullkomna heim!
Sjáið þið hann fyrir ykkur?

Ég finn lyktina af grasinu græna, hoppandi glaðlegt og jákvætt fólk spassera um götur borgar, leiðast með hund í bandi og vel upp alin börn nartandi í hundasúrur við hlið þeirra. Allt fullkomið...Í DRAUMALANDI!!!

Hvað í HELVÍTINU halda menn að maður sé??? FÍFL?? HEIMSKINGI???
Ég er farin að halda það og fékk í raun og veru staðfestingu á því er ég skrapp í sakleysi mínu í bíó í kvöld.
Bíóverð sem hækkaði í 900 krónur ekki alls fyrir löngu er komið í NÍUHUNDRUÐOGFIMMTÍUKRÓNUR!!!
Ég sé þetta alveg fyrir mér og á heldur raunsærri máta en ofannefndur draumur.

Tveir sveittir menn sitja við hringborð ásamt öðrum ekki svo sveittum...

...Jæja þeir ætla að lækka virðisaukaskattinn Hr. Fébjóður..hahmmhaaa.....hvað eigum við að gera...ekki getum við látið þetta renna beint í vasa neytendans ..ha??
(smjatt, slef og svitastrokur)

...Nei...Hr Nískur...það getum við ekki gert....við sjáum sko við þessu..hvað halda þeir eiginlega að þeir geti komist upp með!!! ( hávær rödd, rauðþrútið andlit, spik veltir yfir borðplötuna.

...Já þetta er óforskammað, ég er nýbúinn að fjárfesta í þrjúhundruðogfimmtíumilljóna húsi og keypti hundraðkrónumilljónabíl handa viðhaldinu. Ég held ég verði að aflýsa Pavarotti tónleikunum sem ég ætlaði að halda fyrir hundinn á morgun. Get ekki fengið það að mér, enda á ég ekki eftir að njóta þess við þá tilhugsun að eitthvað lækki. Síðan hvenær hefur það gerst?...Heldur þú Hr. Fébjóður að það sé byllting framundan, ég meina síðan hvenær hefur það gerst að neytandinn fái eitthvað fyrir sinn snúð?

...Þetta er alveg satt hjá þér Hr Nískur...hingað og ekki lengra. Við sjáum við þessu. Neyðumst til þess að lækka nammið annars fara einhverjir brjálaðar feminista húsmæður í hart við okkur en HÆKKUM bíóverðið í staðinn.

HAHAHAHAHAHAHAHAHAHA (sviti og spik skvettist um herbergið).

...En fyrirgefið herrar, þrátt fyrir að virðisaukinn lækki þá fer það ekki úr ykkar vasa, ekki eins og þið verðið persónulega fyrir fjárhagslegu tapi!

Tveir menn með græðgislegan peningasvip líta í áttina til raddarinnar úr horninu.
...Hr. Heilbrigð skynsemi...ÞÚ ERT REKINN!!!.... Öskra þeir og henda honum út í kuldann.

Þar sem ég þarf nú að hætta við að sækja bíóhúsin heim hugsaði ég með mér...guði sé lof fyrir videoleigur ( ekki að ég sé geðveikur myndaglápari, en það er einfaldlega ágætt endrum og eins að sjá fína mynd). En viti menn...sama sagan þar...videospólur kosta núna 600 - 650 kr sem áður kostuðu 500 krónur.

Sælgætis og videohöllin í Garðabænum fær rós í hnappagatið því þar á bæ halda menn sönsum og bjóða viðskiptavinum 2 spólur á heilar 400 krónur. Krambúðin gerir 100 kalli betur og býður þær á 300 kr.

Síðan er náttúrlega alltaf hægt að fara inn á peekvid.com og horfa á þetta allt saman þar...

Jamm....það er vandlifað í sveittum heimi!