27.6.07

Síminn virkar en heilinn ekki!

Þetta er ótrúlega lífseigt tæki! Síminn lætur eins og ekkert hafi gerst og hagar sér eftir því!

Það er gott að eitthvað virki því hið sama er ekki hægt að segja um heilabúið mitt. Það er óvirkt með öllu! Ég komst að því í þessu símaleysi mínu að ég man varla símanúmer minna nánustu ættingja og vina. Það var því lítið hringt í 3 daga sem var afar þægilegt í raun og veru.

Nú allavega...er síminn komst í lag þá tók ég eftir ókunnulegu númeri sem hafði reynt að hringja í mig á furðulegustu tímum í ansi mörg skipti. Forvitnin var alveg að drepa mig.

Ég var alveg viss um að verið væri að leitast eftir mér í vinnu í sumar svo ég varð bókstaflega að komast að því hverjir þetta væru sem þyrftu nauðsynlega á mér að halda. Ég hringdi í 118 ( eitt af þeim númerum sem hafa fest sig við minni mitt ) og sóttist eftir frekari upplýsingum.

Þar kom ég að lokuðum línum því símadaman tjáði mér að þetta væri leyninúmer og hafði engan hug á að gefa mér frekari upplýsingar.

Úúú...leyni- hvað! Ég hélt nú ekki! Ég skyldi sko fá að vita hverjir þetta væru, hvað þeir vildu mér. Þeir höfðu nú ekki bara einu sinni hringt í símanúmerið MITT heldur MÖRGUM sinnum, ég átti því SKILIÐ að vita um hvað málið snérist.

Það var ekkert sem heitir, ég varð bara að hringja í þetta númer, kynna mig og athuga hvort ég kæmist ekki þokkalega frá þessu.

Ég hringdi, hjartað dældi blóði, það hringdi, hjartað dældi meira blóði, það hringdi aftur og svo var svarað.

- Halló ( djúpri röddu...hmm...kunnuglegri röddu...?

- Ehh...( Skræk rödd...) Ehh...ert þetta þú pabbi?

Ég slapp ekki þokkalega frá þessu. Samræðurnar sem á eftir fóru voru frekar hallærislegar skrítnar frá minni hálfu. Þvílík skömm! Ég held ég muni aldrei gleyma gsm-númerinu hans pabba aftur!