16.8.07

Gædalæti

Púff...sviti og meira púff...drivergædalæti eru sko alvöru læti. Ég og síminn minn erum andlega uppgefin eftir 24 daga ævintýri. Ég verð þreytt andlega við að hugsa um það sem hefur gengið á undanfarna daga svo hér verður stiklað á stóru!

Ferð 1

Ónýtur rafgeymir, tvisvar rafmagnslaus, hristingur í stýri, lausar legur og hjólabúnaður alvarlega vanstilltur, furðuleg ljós kvikna og slökkna í tíma og ótíma í mælaborðinu. Leki úr dekki, varadekkið ónýtt, smurolíulaus, kerra með brotið afturljós, að liðast í sundur og rafmagnslaus. Niðurstaða: Tvær heimsóknir á verkstæði, tvö rafmagnsstört og fullt af þolinmæði.

Ferð 2

Borgarbíll sendur í hálendisferð, ljóslaus, ekkert varadekk, sama helv. kerran enn rafmagnslaus með brotið afturljós og jú að liðast í sundur. Skipt um bíl og hann einnig ljóslaus. Sæti fyrir 15 manns en aðeins skráður fyrir 8, ekkert hópbifreiðarleyfi. Niðurstaða: ÉG VIL NÝJAN BÍL!!!! Fæ nýjan bíl sem er sá sami og var á fyrsta degi, ljóslaus, útvarpslaus MEÐ EKKERT VARADEKK!, númerislaus, eitt nagladekk.

Sem sagt bíllinn vekur athygli vegagerðarinnar sem stoppar auðvitað og gerir athugasemdir sér í lagi þar sem ökuritinn var ÓSKRÁÐUR! Niðurstaða: Verkstæðisheimsókn þar sem undanþága var fengin fyrir óskráðum ökurita, reynt að laga helv. kerruna, naglarnir plokkaðir úr dekki.

Ferðinni haldið áfram varadekkjalaus með kerru að liðast í sundur. Niðurstaða: KERRAN FLIPPAR YFIR UM og ákveður að gefa upp öndina á miðjum Sprengisandi. Mér til undrunar liðast hún ekki í sundur heldur hrynur hjólabúnaðurinn undan henni! Ferðinni haldið áfram án helv. kerrunnar. Borgarbíllinn var því ofhlaðinn af farþegum, farangri og matvörum. Springur á einu dekki ...var ég búin að nefna það að ég var VARADEKKJALAUS!

Skipt um bíl þar sem borgarbíllinn var ekki á leið í Þórsmörk. Fæ þennan fína bíl með engum geislaspilara og frábæra kerru með varadekki :) Þegar hér er komið í sögu er ég þokkalega ánægð með farartækið en á eingöngu einn dag eftir. Honum eyddi ég vel með því að festa mig í glæsilegri á á leið inn í Þórsmörk. Niðurstaða: Dregin á þurrt af skálavörðum.

Ég er búin að læra mikið á þessum tveimur ferðum.

Í fyrsta lagi: EKki treysta neinu sem er sagt sér í lagi ef eigandi bílsins segir þér eitthvað.
Í öðru lagi: Ekki fara af stað í ferð án þessa að hafa með varadekk, sama þó þér sé sagt að þú þurfir ekkert á því að halda.
Í þriðja lagi: Ekki treysta á varadekkið því það gæti verið ónýtt.
Í fjórða lagi: Lestu yfir alla pappíra sem eiga að fylgja bílnum, ef engir pappírar eru í bílnum, ekki fara af stað.
Í fimmta lagi: Sætafjöldi í bíl segir ekkert til um það hvað hann sé skráður fyrir mörg sæti!
Í sjötta lagi: Þó það sé ökuriti í bílnum þá er ekkert þar með sagt að hann sé LÖGLEGA SKRÁÐUR!
Í sjöunda lagi: Vandaðu val þitt á þeim sem þú leitar upplýsinga hjá, illa innrættir bílstjórar sem hata konur undir stýri munu gera hvað sem þeir geta til þess að það fari illa fyrir þér.
Í áttunda lagi: Kerrur sem líta út fyrir að vera að hrynja í sundur munu fara illa með þig.
Í níunda lagi: Ef bíllinn er ljóslaus þá eru einnig miklar líkur á því að eitthvað annað alvarlegra hrjái hann.
Í tíunda lagi: Þolinmæði þrautir vinnur allar.

Kveð að sinni og sé ykkur í lok ágúst með fallegan rauðan nebba, úfið hár og vindbarnar kinnar!