14.3.05

Skák og mát?
Frítt föruneyti göfugra manna hélt af stað út í heim í þar síðustu viku. Ferðinni var haldið á austrænar slóðir til þess að frelsa Íslandsvininn og stórskákmeistarann Fishcer úr haldi japanskra stjórnvalda. Menn ferðast stutt um á sauðskinnskónum einum sér þessa dagana, enda öldin önnur, og í stað nestis og nýs skófatnaðar var glænýrri kennitölu og vegabréfi komið fyrir í farteskinu fyrir tilvonandi Íslendinginn.
Föruneytið kom að luktum dyrum í austri og fékk hvorki að sjá né tala við meistarann. Fyrirstaðan var ein lítil diplómatísk regla sem ráðamenn íslensku þjóðarinnar höfðu ekki hugað að. Eftir vangaveltur og skoðanaskipti komust ráðamenn í norðri að þeirri niðurstöðu að eflaust hefðu ráðmenn í austri rétt fyrir sér. Komin var upp pattstaða. Heimboð og útrétt hjálparhönd litla landsins í norðri var farin að líta hálf kjánalega út.

Samkvæmt atburðum liðinna viku virðist sem valdataflið sé rétt að hefjast og hefur maður vart undan við að fylgjast með hver á næsta leik í Fischersskákinni. Menn tala jafnvel um að nýtt stóreinvígi sé að hefjast sem er að vísu frábrugðið öðrum einvígum þar sem lítið og að því virðist valdlaust peð hefur skotið sér inn á leikborðið leikmönnum til mikillar ama.
Margir fylgjast eflaust spenntir með framgöngu okkar manna í Japan enda sögðust þeir lauma á leynilegu útsspili ef í hart færi.

Vald hinna veiku er vanmetið. Lítið og valdalaust peð getur umbreyst í valdamikla drottningu ef ekki er vel að gáð.
Nýjasta útspil Bandarískra stjórnvalda til að fyrirbyggja að slíkt gerist er að væna Fishcer karlinn um skattsvik. Verð ég að taka undir með talsmanni Fishcers að það er hálf undarlegt eftir öll þessi ár að svikamylla skákmeistarans skuli fyrst nú vera dregin fram á leikborðið nær 30 árum síðar.

Nú er bara að vona að peðum verður skipt í drottningar og bíða spennt eftir næsta leik í þessari æsispennandi Fischersskák.
En ef föruneytið kemur tómhent heim er ekki að örvænta. Í bígerðinni er heimildamynd um ævintýrið góða í austri og í henni fá ráðamenn þjóðarinnar án efa ágætis útreið vegna þessa aumasta heimboðs sem um getur í Íslandssögunni.

p.s.
Glatað...hlustaði á fréttir er ég var að pára þetta og samkvæmt þeim er Sæmi bara á leið heim og eyðilagði þar með þennan líka fína pistil!
Hvert var þetta laumuspil föruneytisins? Það hefur alveg farið framhjá mér....hmm..ætli það hafi verið afmælissöngurinn sem Sæmi söng fyrir Fischer??