14.9.07

Ég er að drukkna í drasli!

Eftir tveggja mánaða fjarveru hefur ansi mikið ryk og drullumsull safnast fyrir á furðulegustu stöðum á mínu annars yndislega heimili.
Ég þoli ekki ryk, er algjörlega á móti því og skil ekki tilganginn með því.
Í stað þess að blása rykið af hillum ákvað ég að standa í stórræðum og hefja allsherjar jólahreingerningar og pússerí, ekki seinna vænna þar sem nú eru aðeins 101 dagur til jóla.
Mér finnst þetta snilldarhugmynd hjá mér að nýta birtuna meðan hún er enn til staðar í stað þess að þykjast laga til í myrkvasta skammdeginu.

Megin markmið þessarar tiltektar er ekki aðeins að leggja mitt að mörkum til hreinni veraldar heldur einnig að henda, henda, henda...
Jamm, söfnunaróða fríkið hefur tekið þá ákvörðun að farga eins miklu og það mögulega getur.
Þessi ákvörðun var samþykkt einróma á heimilisfundi sem haldin var í síðustu viku eftir að húsfrúin hafði lesið kaflann um heimili í snilldarbókinni ,, Einfalduðu líf þitt - 100 leiðir til þess að draga úr streitu og njóta þess sem raunverulega skiptir máli,,.

Eftir lestur kaflans komst ég að því að ég á ansi mikið af furðulegum hlutum sem eiga ekki að skipta mig máli, hafa engan tilgang og eru bara fyrir. Jamm... ég sagði eiga ekki að skipta mig máli því það furðulega er að ég elska hluti, helst ef þeir eru gamlir og lúnir sem engin vill eiga.
Þessi ást mín hefur leitt til þess að ég hef í gegnum tíðina ættleitt furðuhluti sem aðrir vilja ekki eiga og tengst þeim órjúfanlegum tilfinningarböndum.
En hingað og ekki lengra! Vík frá mér drasl ...og aðrir ef þið eruð að lesa þetta...passið ykkur bara er þið opnið jólagjafirnar frá mér þetta árið... : )