9.6.03

hugleiðing.....


Ég hitti fyrir par í gær sem er húsnæðislaust og býr í bílnum sínum. Ég held að heimilislausir á Íslandi séu fleiri en maður gerir sér grein fyrir. Mikil synd og skömm hjá svona ungu fólki. Ég sá alveg að þau voru frekar útlifuð og eflaust upplifað ótrúlega tíma sem ég get ekki einu sinni reynt að ímynda mér hvernig voru. Frá því að ég hitti þau í gær þá hef ég verið með þau á heilanum... Það er án efa erfitt fyrir þau að vinna sig upp úr þessari stöðu sem þau eru komin í og fá tækifæri til þess að sanna sig og þvi finnst mér þetta ótrúlega sorglegt. Það eru örugglega ekki margir sem gefa fólki í þeirra aðstöðu tækifæri til að sanna sig sem starfskraftar og svo aftur á móti ekkert víst að þau plummi sig þar sem mér virtist þau vera frekar illa farin andlega. Mér finnst óásættanlegt í þessu samfélagi okkar að ekki séu til úrlausnir fyrir heimilislausa. Ég man eftir því að hafa heyrt nýlega af einhverju húsi í bænum sem býður hverjum þeim sem er á götunni þak yfir höfuðið yfir blánóttina en einstaklingar eins og parið sem ég hitti það þarf miklu meiri aðstoð en það. Þau þurfa að öðlast sjálfsmynd sína aftur,verða fyrir uppbyggjandi áreiti,takast á við ögrandi verkefni. Kannski hafa þau fengið þetta allt saman en ekki höndlað en ég held að engin velji sér þann kost af fúsum og frjálsum vilja að búa sér hreiður í bílnum sínum og flakka á milli bílastæða í von um að löggan taki ekki eftir þeim. .....Hið sorglega er að eflaust tekur hún eftir þeim en lætur þau í friði.
Parið fór allavega ekki framhjá mér þar sem þau kúrðu tvö undir sæng aftur í bílnum sínum,stelpan að lesa og strákurinn órólegri við að koma sér fyrir. Hann kom auga á mig þar sem ég stóð við minn bíl og starði á þau, vippaði sér út úr bílnum, gekk upp að mér og bað mig um sígarettu......Það var furðuleg tilfinning því mér fannst ömurlegt að geta ekki veitt honum eina sígarettu, það jaðraði við að mig langaði að keyra út í búð 1,2 og 3 og kaupa einn pakka handa honum,kveikja mér í einni sjálf og setjast niður og spjalla við hann bara eins og manneskjur gera dagsdaglega......en í staðin þá áttu við örfá orðaskipti og snéri hann svo frá mér og gekk álútur í átt að bifreið sinni ..... Ég keyrði heim og gat ekki hætt að hugsa um þau þar sem ég lá undir heitri sæng og horfði á allt dótið sem ég hef sankað að mér í gegnum árin........