18.3.05

Allt í drasli...
Ég beið spennt eftir nýjum dagskráliði Skjás Eins „Allt í drasli“ sem frumsýndur var sunnudaginn 6. mars. Ég gat ekki ímyndað mér hvernig hægt væri að halda athygli áhorfanda með þema sem gengi út á að kenna fólki að taka til. En ég horfði á allan þáttinn og ákvað að horfa á þátt nr 2...sem var ekki síðri. Ef næstu þættir verða eitthvað í líkingu við fyrstu tvo þá er eflaust mikil þörf á slíku sjónvarpsefni því annað eins hús (sbr 1.þáttur) og önnur eins klósettskál (sbr 2.þáttur) hafa vart sést á skjánum. Má með sanni segja að húseigendurnir hafi opnað heimili sitt upp á gátt fyrir áhorfendum sem eru eflaust enn slegnir yfir ósnyrtilegu ástandi þess.

Þátturinn svipar til Tantra þáttarins sem sýndur var forðum daga á Skjá Einum af því leyti að umfjöllunarefnið snertir á einkalífi fólks sem hingað til hafa lítið verið rædd fyrir framan sjónvarpsskjáinn.
Snyrtipinninn Heiðar og tiltektarkonan Margrét, stýra Húsmæðraskólans, eru fremst í flokki hreinsunardeildar sem tekur að sér að laga til og kenna ýmis húsráð. Þau taka sig ekkert allt of hátíðlega sem setur skemmtilegan blæ á þáttinn.
Hann er á léttari nótunum og kryddaður með athugasemdum þular sem poppar þáttinn upp með fyndnum innleggum. Stef þáttarins hljómar prakkaralega og er notað óspart við ýmis tilfelli á skemmtilegan máta.

Þó að þetta sé ýkt sjónvarpsefni þá er þetta ágætis mótsvar við Innlit Útlit sem tekur á hinni hlið öfganna þ.e. óeðlilega stílhrein og fullkomin heimili. Svo er bara hvers og eins að meta hvor þáttanna endurspegli raunveruleikann betur.
Svo virðist sem mikill áhugi sé fyrir efni sem þessu og má segja að þriðjudagskvöld séu orðin að tiltektarkvöldum hjá Skjá Einum. „Allt í drasli“ er endursýnt það kvöld og í kjölfar þess þáttar tekur við „Innlit Útlit“ og svo „Queer eye for the stright guy“ strax á eftir.
Með áframhaldandi áhorfi mínu á þess háttar dagskráliðum á ég eftir að breytast í ,,hvíthyski"....