10.12.07

Þessi pistill er tileinkaður Emsunni minni og Marý!

Stúlkur ég þakka lífgjöfina! Hvar væri ég stödd í dag ef ekki hefði verið fyrir hugulsemi ykkar í minn annars hvítvínssósa garð!

Fyrir þá sem ekki vita þá mætti ég sæl til skemmtilegs kvennaboðs síðastliðinn föstudag. Það er óhætt að segja að þjónn dagsins hafi staðið sig ansi vel í stykkinu, ég man ekki eftir því að hafa verið með tómt glas í hendi þá nánast þrjá tíma ( minnir mig) sem ég sat boðið. Ef ég tók sopa þá kom uppfylling í glasið nánast um leið! Þetta er auðvitað frábær þjónusta fyrir þá sem KUNNA með hana að fara.

Mér leið eins og ég væri alltaf með þetta sama glas sem auðvitað er rétt. Ég var bara með eitt glas en ávallt nýjan vökva til þess að þamba, sem ég gerði auðvitað mjög mjög dömulega. Nú...veislan leið áfram og ég efldist í þamberíinu þangað til tekin var sú ákvörðun að skella sér í opnun ónefndrar verslunar sem mér fannst bara snilldarákvörðun. Skella sér í smá sjoppíng áður en haldið var niður í bæ!

Nú einhvern vegin komst ég í fylgd E og M í opnunarteitið. Er ég gekk inn um dyragættina laust því upp fyrir mér að ég væri nú eflaust ekki í góðu sjoppíng formi, allt snérist sem ekki átti að snúast, ég leið um á bleiku skýji, létt á fæti, nánast þyngdarlaus.

Það leið ekki á löngu þar til ég uppgötvaði að hin léttfæta balletdansmær á bleika skýjinu væri eflaust líkari fíli í postulínsbúð.

Braml, brot og skvarl!!...

Með mínum kvenlega glæsileika hafði mér tekist að aflima saklausan jólasvein. Staðráðin í því að borga fyrir misgjörð mína leið ég áfram að afgreiðsluborðinu. Ég var með tvö vísakort, eitt debetkort og pening, ég HLAUT að eiga fyrir brotunum, hugsaði ég og krafðist þess að fá að borga brúsann. Það gekk erfiðlega að sannfæra búðarkonuna sem þó loks gaf sig enda hefur hún eflaust ekki nennt að rökræða við hvítvínsbað. Reikningurinn hljóðaði upp á heilar 490 krónur sem ég borgaði afar sátt. Stórslasaði jólasveinninn var settur í veskið og haldið út í leigubíl sem var allt í einu kominn á svæðið. Við brunuðum í bæjarheimsókn þar sem Beggan var sett í kærkomið kaffibað. Eftir gott og heitt kaffi var ekkert annað en að skella sér á dansgólfið sem við E og M gerðum með svaka stæl!

Stelpur, takk fyrir skemmtilega kvöldstund, takk fyrir að taka mig með, takk fyrir að hafa ekki yfirgefið mig og takk fyrir að koma mér heim!

Takk! : *