Hjálækningar....
Þegar ég var skiptinemi út í Chile á sínum tíma bjó ég hjá fjölskyldu sem var gefin fyrir óhefðbundnar lækningar sem hún sótti til eldri fræða Mapuche indíana. Flestar hjálækningar eru ósjálfrátt bendlaðar við menningu indíánanna og þá á frekar neikvæðan máta. Mapuche indíánar búa á verndarsvæðum í suðurhluta landsins og eru upprunalegi kynstofnin sem þar bjó áður en Spánverjar og aðrir þjóðarhópar yfirtóku landið. Þeir eru í miklum minnihluta í Chile og er litið á þá sem "útlendinga" þrátt fyrir að þeir eiga að öllu leyti meira tilkall til landins.
Fabiola,dóttirin á heimilinu, hafði átt í miklum erfiðleikum í sínum ástarmálum og meðal annars haldið við giftan mann sem var ekki vel séð af fjölskyldu hennar og var alltaf talað um að Fabiola væri veik og gæti ekki ráðið við þetta sjálf þar sem neikvæð öfl hefðu tekið sér bólfestu í líkama hennar. Þetta væri í raun og veru ekki í hennar höndum og þyrfti því að hreinsa líkama hennar.
Var ákveðið að leita ráða til “Systurinnar” sem var uppfull af alls konar ráðleggingum og læknisráðum. “Systirin” hafði það hlutverk að flakka á milli þorpa og deila af visku sinni.
Snemma einn morguninn fór móðirinn af stað til “Systurinnar” en erfitt var að fá tíma hjá henni og nauðsynlegt að fara snemma af stað vegna þeirra löngu biðraðar sem myndaðist alltaf fyrir utan húsið hennar.
Seinna um kvöldið kom móðirin aftur heim og tók Fabiolu á tal. Mikil leynd hvíldi yfir erindagjörðum móðurinnar og var ekki rætt um það á heimilinu.
Stundu seinna kallaði hún á mig og sagði að í kvöld myndi Fabiola læknast og ég þyrfti að taka þátt í þeirri athöfn með henni þar sem við sváfum í sama herbergi. Vorum við látnar fara í sturtu eftir kvöldmat en á meðan var skipt á rúmfatnaði hjá okkur. Eftir sturtuna fórum við inn í herbergi og þar áttum við að leggjast upp í rúm undir hvítt lak,naktar og opna herbergisgluggann upp á gátt.
Andar áttu að koma um nóttina meðan við værum sofandi og hreinsa Fabiolu af syndum hennar og gera henni kleift að hefja nýtt og betra líf.
Athöfnin var töfrum líkust og um miðja nótt voru ill álög dregin í burtu úr líkama hennar. Neikvæð orka og óæskilegar þarfir voru hraktar af brott. Á meðan að líkami hennar svaf ,umvafinn hvítu laki, gekk andi hennar í gegnum hreinsunareldinn.
Í dag er Fabiola hamingjusamlega gift móði. Hvort það sé "Systurinni" að þakka eða Fabiolu sjálfri sem batt enda á samband sitt við gifta manninn veit ég ekki en að taka þátt í þessari athöfn með Fabiolu var ógleymanleg og skemmtileg lífsreynsla.......
Hmm...það mætti kannski taka þessa athöfn til athugunnar hér á landi í þessari brjálæðu framhjáhaldagleði landans.....
<< Home