2.1.08

Gleðilegt nýtt ár... þetta ár er MITT ár!

Ég steig á stokk um áramótin, eða öllu heldur á einn af rifnu flugeldakössunum í götunni hjá pabba, og fór með heit mín fyrir árið 2008! Heitin voru strengd í einveru undir hávaða flugeldanna sem lýstu upp himininn. Í hávaðanum mátti greina 1812 Overtue Tchaikovsky sem ómaði út um gluggann. Þetta tónverk er hreint út sagt stórkostlegt og var samið fyrir 128 árum síðan og fjallar um sigur Rússa á Napoleon.

Frá því ég man eftir mér hefur þetta 15 mínútna langa verk verið spilað rétt fyrir miðnætti á mínum bæ og náð hápunkti á slaginu tólf, er flugeldasprengingar ná hámarki. Á þeim tímapunkti í verkinu má heyra sprengingar úr kanónum, háværar kirkjuklukkur hringja og flugeldar springa. Ég get ekki hugsað mér betri stemmingu til þess að kveðja gamla árið og fagna því nýja.

En aftur að heitunum, þau hafa nú verið innsigluð í huga og hjarta og eins og títt er í dag þá eru þau einkamál og aðeins fyrir mig að hafa gaman af... að fráskildu einu heiti sem ég hyggst deila nú hér á síðunni.

En þannig er mál með vexti að oft líður mér eins og skáldsagnarhetjunni Bridget Jones. Ef ekki væri fyrir þær ágætis bækur og bíómyndir þá hefði ég eflaust sjálf sest niður og skrifað grátlega fyndna bók um eigið ágæti.

Vinir og vandamenn hafa verið duglegir við að benda mér á, með einum eða öðrum hætti, að þjóðfélagsstaða mín er hreint út sagt ömurleg! : )
Ég er þrjátíuogþriggja ára gömul einhleyp kona ( öðru nafni, gott efni í piparjúnku ). Vegna þessa hefur undanfarið verið gefið út ókeypis skotleyfi á mig sem náði áhugverðum hápunkti á árinu sem leið.

Ég get nánast fullyrt að í öllum þeim fjölskylduboðum sem ég fór í á árinu 2007 beindust umræður um mig og mínar ,,aðstæður,, .

- Berglind þú ert of kröfuhörð!
- Ef þig langar til þess að eignast börn þá þarftu að fara að drífa í því heillin, ég heyrði að þrjár
konur af hverjum tíu væru búnar að missa legið fyrir 35 ára aldur!
- Hvernig væri nú að þú tækir saman við X, þetta er fínn strákur, voða góður, þénar vel. Jújú...
ég veit hann burstar aldrei í sér tennurnar og er ekkert sérlega aðlaðandi en þú getur nú kippt
því í lag. Hver kona þarf auðvitað að móta sinn karl!
- Þú þarft engann karl til þess að eignast barn, bara skella sér á djammið!
- Er ekki búið að opna sæðisbanka í Danmörku?
- Berglind mín... hneigist þú að konum?

Ég gæti haldið áfram en læt staðar numið í þessum upptalningum því eins og sjá má þá snýst þetta jú allt um mann og börn... og ef ekki mann þá allavega börn!

Það hefur verið reynt að koma mér saman við menn á aldrinum 19 til 48 ára, sumt auðvitað í gríni en hvað liggur oftast á bakvið grín?
Á bakvið grín liggur alvara lífsins, ég ætti nú að vita það enda búin að skrifa heila ritgerð um viðfangsefnið.

Er ég viðraðaði þetta vandamál við eina góða vinkonu mína sagði hún mér að ég hlyti að bjóða upp á þetta. Ég varð hissa og fór að velta því fyrir mér hvort það gæti verið. Eftir töluverðar vangaveltur komst ég að því að það hlyti eflaust að vera. Ómeðvitað með hátterni mínu gæfi ég höggstað á sjálfri mér og það væri kominn tími til þess að því að taka fyrir slíkt og gera eitthvað í málinu. Ég ákvað því á milli jól og nýár að eitt af heitunum fyrir árið 2008 væri að taka fyrir allar umræður sem snérust að mínu einkalífi.

Mér fannst þetta fínn tími til þess að taka ákvörðunina þar sem aðeins var eftir að fara í tvö fjölskylduboð. Í þessum boðum gæti ég meðvitað fylgst með sjálfri mér og gert smá tilraun fyrir nýja árið. Fyrra boðið gekk ágætlega og afrek þess boðs var ein athugasemd.

En svo kom gamlárskvöld.

Við sátum við fagurlega skreytt borð hlaðið dýrindis dásemdum og við hvern disk lá eitt knall ( svona áramótaskraut sem er pakkað inn eins og karmella og maður þarf að toga í sitthvorn endann á og þá kemur eitthvað dót úr því ) :)

Undanfarin ár hefur verið hefð í gamlársfjölskylduboði að hver og einn fái málshátt sem hann les upp fyrir fjölskylduna. Málshátturinn á að vera á einhvern hátt lýsandi dæmi um þann sem les upp. Í þetta sinn var málsháttur inni í knöllunum. Sem þýðir jú auðvitað að það gat enginn vitað hvað hver og einn fengi. Eftir að allir hefðu opnað sitt knall og lesið upp spekina var komið að mér að gera slíkt hið sama. Ég sprengdi mitt knall og fékk silfraðan fisk og bréfsnepil sem ég opnaði og las upp...

- GOTT EIGA ÞEIR SEM GIFTIR ERU EN GUÐ HJÁLPI MÉR

Athugasemdir þessa kvölds um mitt einkalíf eru óteljandi.

Eflaust get ég stjórnað einhverju varðandi umræður um mitt einkalíf en ekki öllu, það er víst!
En upp á flugeldakassann hef ég stigið og strengt mín heiti... árið 2008 er MITT ár!