26.1.08

Kveðja frá St. Pétursborg

Klædd íslenskri flíspeysu- og buxum, þykkum göngusokkum, fjallaskóm og dúnúlpu og með loðna Rússahúfu á höfði arkaði ég út í mannmergðina. Ég var viss um að ég myndi falla vel inn í fjöldann enda var megið markmið dagsins að heimsækja útimarkaðinn Údélnaja þar sem enginn mátti vita að ég væri ekki Rússi.

Kvöldinu áður hafði ég setið með vodkaglas og ,,sakuski,, ( vodkasnakk sem samanstendur af olivíum, saltkexi og osti ) í hendi og fengið fínar ráðleggingar frá innfæddum hvernig ég ætti að bera mig. En það vita allir að í Rússlandi þá borgar þú MEIRA ef þú er útlendingur. Innfæddir voru á því að útlitslega séð þá yrði þetta ekkert vandamál, ég mætti bara EKKI tala. Eftir nokkuð mörg vodkaglös var ákveðið að ég skyldi þykjast vera mállaus og ef ég sæi eitthvað sem mig langaði til þess að kaupa þá ætti ég bara að kinka kolli til Kötu systur sem myndi þá leggja sig alla fram í prútti dagsins.

Þegar ég var á leiðinni í neðanjarðarlestinni á markaðinn fannst mér sem allir væru að horfa á mig en ég var fljót að gleyma þessum vangaveltum er á markaðinn var komið því það var svo margt að sjá. Údélnaja er ÚTImarkaður í sinni ýktustu mynd. Hann liggur við lestarteina í úthverfi St. Pétursborgar og þar má finna allt sem hugurinn girnist... á góðu verði EF þú ert Rússi. Údélnaja þýðir ,, Héraðið í fjarska,, sem liggur þó aðeins 12 km frá St. Pétursborg.

Við systurnar gengum hratt meðfram sölubásunum því stefnan var tekin á uppáhaldsstaðinn hennar Kötu. Er þangað var komið mátti sjá eldra fólk, bæði menn og konur, sem voru að reyna að selja þá furðulegustu hluti sem ég hef á ævi minni séð. Hlutirnir lágu ofan á plastdúkum á jörðinni nú eða jafnvel bara ofan á jörðinni í snjódrullunni, allir þaktir hvítum snjó, því það hafði jú byrjað að snjóa. Þarna var hægt að kaupa fálátar gamlar rússneskar ,,blautar,,bækur, brotna vasa, úr, sturtuhausa, ryðgaðar skrúfur, hermannaorður, jólaskraut, lykla, ryðguð skæri, notuð barnaföt á kafi í snjó, leikföng, hljóðfæri, hjól, lampaskerma, rafmagnstæki og auðvitað allt blautt eða ryðgað og eflaust margt bilað. Þetta var furðulegt samansafn af skrítnum hlutum og ég endurtek enn og aftur...ALLT Á KAFI Í SNJÓ!

Eftir ágætis rölt á milli plastdúka í drulluslabbinu fann ég djásnið sem átti eftir að verða mitt. Katan stóð sig í sínu og eftir skamma stund var ég orðin eigandi af eldgömlu rússnesku jólaskrauti frá 1950. Afar sælar og sáttar eftir kaup dagsins héldum við til baka í átt að lestarstöðinni. Er við vorum sestar inn í lestina uppgötvaði ég jú að það voru allir að horfa á mig. Þetta var ekkert bull í mér fyrr um daginn. Það voru ALLIR að glápa á mig! Ég fór að bera þetta undir Kötu og eftir að hún hafði grandskoðað mig þá var hún viss um að vera komið með svarið. Það var Rússahúfan, Rússar klæðast ekki húfunum sínum nema í -10 gráðu frosti en hitastigið var eflaust rétt við frostmark í dag. Þegar ég leit í kringum mig sá ég að ég var eina manneskjan í lestinni sem var með húfu. En ekki nóg með það að vera hallærislegur útlendingur með Rússahúfu á kollinum því Katan tjáði mér að húfan mín væri KARLAHÚFA.

Heima á klakanum er þetta ekkert mál, allir klæðast því sem þeir vilja klæðast hvort sem flíkin er merkt kk eða kvk en hér úti gera menn og konur greinarmun. Konur eru konur og karlar eru karlar. Rússneskar konur mega eiga það að þær eru ótrúlega kvenlegar og rússneskir karlmenn mega eiga það að þeir eru óttalega hallærislegir. Maður sér ekki eina rússneska konu í flísfötum eða gönguskóm þrátt fyrir slabb og snjókomu. Þær eru allar á háum hælum, klæddar eins og út úr nýjasta tískublaði, óaðfinnalega ýkt málaðar í skvísujökkum og pinnahælum.

Ég verð að viðurkenna það að á leiðinni heim leið mér hallærislega ókvennleg í flísfötunum mínum með karlahúfuna á kollinum. Það skiptir ekki máli hvernig viðrar á morgun ég mun setja á mig appelsínugula augnskuggann, skella mér í háu hælana og fara í pils. Því jú það skiptir máli ...ef maður vill ekki draga of mikla athygli að sér að vera EINS og hinir...

Knús og kossar