1.4.05

Allt í plati fyrsti apríl....
Platdagurinn er liðinn í garð og bíða menn eflaust spenntir eftir að sjá hverju fjölmiðlar reyna að gabba í landann. Það sem mér hefur þótt leiðinlegast við þennan annars skemmtilega dag er hvað hefðin er að breytast. Í stað þess að láta menn hlaupa apríl er þetta orðið að allsherjar lygaralubbadegi þar sem markmiðið er bara að ljúga einhverju að fólki án þess að það þurfi að hreyfa sig fet.

En þetta árið er 1. apríl ekki síður merkilegur fyrir þær sakir að eftir u.þ.b. 8 klukkustundir og 47 mínútur mun nýr fréttastjóri útvarps hefja störf og bíð ég óþolinmóð eftir að fá fregnir af því fjölmiðlafári.

Það er aldrei lognmolla við starfsráðningar hjá ríkisfjölmiðlinum enda um að ræða útdeilingu á pólitísku sæti. Út frá umræðum fjölmiðla undanfarna daga er augljóst að framundan eru mikil átök enda menn ekki á eitt sáttir um þessa starfsráðingu sem er eflaust að verða sú umdeildasta í sögu starfsráðninga hér á landi.
Það er skiljanlegt að fréttamönnum þyki vegið að hlutleysi fréttastofunnar með ráðningunni og einnig skiljanlegt að mönnum kvíði fyrir því sem dagurinn mun bera úr skauti.

Í stórum vel reknum fyrirtækjum vita þeir sem ráða að starfskrafturinn er mikilvægasti auður fyrirtækisins. Í stórum ríkisreknum fyrirtækjum virða áherslurnar vera annars lags. Og það er einmitt þær áherslur sem eru merkilegar. Yfirmenn leggja ekki hlustir við þau mótmæli sem hafa farið fram innan Rúv. Það er ekki talað við starfsmenn, ekki hlustað á þá og eiginlega bara engin viðbrögð. Starfsmenn eiga bara að þegja og kyngja því sem í þá er hent. Sem er merkileg stjórnun. Akkúrat engin viðleitni heldur kúgun a la silent treatment...jamm vald þagnarinnar er mikið...

Ráðamenn vonast og eflaust trúa að allt muni þetta ganga yfir þegar þar að kemur, menn fallist í faðma og brosi út að eyrum.
Það sem er sorglegt og í raun erfitt í stöðu starfsmanna Rúv er að þeir eru fréttamenn og bera fyrst og fremst skyldu til sinna hlustenda/áhorfenda. Í öðrum fyrirtækjum ættu starfsmenn auðveldara með að fá menn til þess að hlusta á sínar skoðanir með því t.d. að leggja niður störf. Mótmæli fréttamanna eru erfiðari fyrir vikið og því forvitnilegt að sjá næstu daga hvernig þeir ætla að takast á við þessa baráttu.