29.12.07

Skrýtnar reglur hjá ###

Samkvæmt farseðlinum mínum er ég á leið til ### en samkvæmt ### er ég ekki velkomin á 30 daga vísa, ástæða?
Jú, hvað ætla ég að gera þarna í 30 daga, ég hef ekkert að gera þangað í 30 daga. Í afar persónulegu bréfi sem ég fékk sent til mín í dag var mér tjáð að ég hefði sko ekkert að gera með að vera lengur en 2 vikur! Á tveimur vikum gæti ég farið á söfn, skoðað mig um, hitt fólk og haft gaman. Tvær vikur væri fyllilega nægur tími en 30 dagar væri ,,spúkí,, ferð.

,,Spúkí,, ferð krefst ítarlegra upplýsinga um hvað ég hyggst gera, hvern ég ætla að hitta, hvar ég ætla að búa og hversu mikla peninga ég ætla koma með inn í landið.

Nú þar sem ég er útlendingur þá má ég bara búa á hóteli ( sem ég náttúrulega mun gera ) því ef svo ótrúlega vildi til að ég þekkti einhvern, sér í lagi útlending, sem byggi í landinu þá mætti ég EKKI búa hjá honum. Útlendingar mega nefnilega ekki leigja húsnæði þarna úti. Svo EF ég þekkti einhvern ( sem ég geri náttúrulega ekki ) þarna úti sem væri útlendingur þá þyrfti hin sami að vera í námi og búa á stúdentagörðum. Og ef hann byggi á stúdentagörðum þá mætti ég náttúrulega ekki búa þar með honum því ég er jú ekki í námi þarna úti!

Eins gott að ég þekki engan útlending þarna úti sem er í námi og býr á stúdentagörðum!

Það sem er ennþá furðulegra er að samkvæmt gömlum ### lögum sem N.B. eru enn við lýði þá mega útlendingar ekki heimsækja það!

Svo niðurstaðan er þessi:

Ef allt gengur eftir þá er ég EKKI að fara að heimsækja ### í aðeins 2 vikur sem er sko nægur tími til þess að skoða hús og fólk. Og mun EKKI búa hjá einhverjum sem ég EKKI þekki sem er EKKI útlendingur í námi sem býr EKKI í eigin leiguíbúð.

Ég bíð spennt eftir EKKI ferðinni minni og krefst þess að þeir sem vilja segja skoðun sína á þessu bloggi nefni EKKI nöfn, lönd, eða annað sem mun skaða EKKIÐ mitt...

Takk fyrir og gleðilegt nýtt ár! : )

17.12.07

Ég þoli ekki...

að borga fyrir þjónustu sem ég svo ekki fæ!

Þannig er mál með vexti að ég er ein þeirra sem hefur vanið sig á þjónustu 118 sem er afar slæmt og hallærislegt þar sem ég á símaskrá. En þessi galli minn er algjörlega múttu að kenna!

Allavega, undanfarin skipti er ég hef nýtt þessa ,,þjónustu,, hef ég fengið vitlaust númer uppgefið eða viðkomandi símadama hefur ekki fundið númerið sem ég var að leita að eftir að hafa haldið mér í símanum í laaaangan tíma sem ég auðvitað borga!

Í dag hringdi ég í 118 og þurfti að fá símann hjá ræðismanni Rússlands hér á landi sem ég veit að er á Túngötu. Símadaman fann ekkert númer eftir langa leit, gott og vel. Þá bað ég um númerið hjá sýslumanni og ég fékk rangt númer uppgefið og fyrir þetta hef ég eflaust borgað um 100 krónur. Réttlætiskennd minni er misboðið og ég verð að tjá mig um þetta hérna fyrir jólin, pústa smá út. Ég veit að þetta eru nokkrar krónur en mér er sama, rétt skal vera rétt. Ef fleiri hafa svipaða sögu að segja og ég þá erum við heldur ekkert að tala um nokkrar krónur!

Ég veit ekki hvað er í gangi hjá 118 en viðskiptahættir þeirra eru til háborinnar skammar. Ég man þá tíma er ég hringdi í 118 og fékk upplýsingarnar nánast áður en ég bað um þær! Það var í þá gömlu góðu daga þegar allir voru svo færir í vinnunni sinni, fyrir tíma tæknivæðingar, þegar fólk hafði nokkuð sem kallst VIT!

Ég veit svo sem alveg hver lausnin er því ekki sé ég fram á að fá endurgreitt fyrir þá þjónustu sem ég hef hingað til borgað fyrir en ekki fengið. Og ekki nenni ég lengur að láta þetta pirra mig, það er kominn tími til þess að endurnýja kynni mín við símaskrána...hún svíkur engan!

Mín ráðlegging til ,,JÁ 118,, er að þeir ættu að fara að segja ,,Góðan daginn kæri viðskiptavinur, mikið er veðrið gott í dag. Þú hefur hringt í JÁ 118, get ég aðstoðað,, og þá kannski... þá kannski ná þeir upp tapinu við að missa mig sem viðskiptavin!

Jæja þá er þetta púst búið... :)

12.12.07

Rússja hjér æ komm

Þá er það ákveðið. Rússland verður heimsótt í fyrsta sinn á minni ævi janúar 2008!
Eflaust er það engin tíðindi að ein sauðkind af skerinu ferðist út fyrir landsteinana en þessi ferð er merkileg, mikilvæg og meirirháttar sniðug.
Í nær þrjú ár hef ég falið mig á bakvið skólanám sem hefur fjötrað mig niður á ansi furðulegan hátt. Í einu af mínum hallærislegum ákvörðunartökum ákvað ég að til útlanda færi ég ekki fyrr en að námi loknu. Ansi sniðugt á þeim tíma en ekki svo sniðugt er litið er til þess að mín yndislega litla rauðkusystir hefur alið sinn mann í Rússalandi á þriðja ár ÁN ÞESS AÐ ÉG HAFI HEIMSÓTT HANA og ég skammast mín í botn!

Hvað er maður að takmarka sig svona...setja fyrir illa lyktandi og myglaðar gulrætur í þeirri von að hvað? Lífið er of stutt til þess.
Svo hingað og ekki lengra, hér með lýsi ég því yfir að hallærislega ákvörðunartakan á sínum tíma verður hér eftir merkt ,, dauð innihaldslaus og hallærisleg yfirlýsing,,.

Út vil eg og út skal ég fara :)

Kata-skan...eins gott að fara að búa um gestarúmið og skrifa niður óskalista um það sem ég á að hafa með mér frá klakanum.
Loðhúfan mín er komin ofan í tösku, lopapeysan verður sett út í rokið til hreinsunar og dúnúlpan er til í tuskið....

10.12.07

Þessi pistill er tileinkaður Emsunni minni og Marý!

Stúlkur ég þakka lífgjöfina! Hvar væri ég stödd í dag ef ekki hefði verið fyrir hugulsemi ykkar í minn annars hvítvínssósa garð!

Fyrir þá sem ekki vita þá mætti ég sæl til skemmtilegs kvennaboðs síðastliðinn föstudag. Það er óhætt að segja að þjónn dagsins hafi staðið sig ansi vel í stykkinu, ég man ekki eftir því að hafa verið með tómt glas í hendi þá nánast þrjá tíma ( minnir mig) sem ég sat boðið. Ef ég tók sopa þá kom uppfylling í glasið nánast um leið! Þetta er auðvitað frábær þjónusta fyrir þá sem KUNNA með hana að fara.

Mér leið eins og ég væri alltaf með þetta sama glas sem auðvitað er rétt. Ég var bara með eitt glas en ávallt nýjan vökva til þess að þamba, sem ég gerði auðvitað mjög mjög dömulega. Nú...veislan leið áfram og ég efldist í þamberíinu þangað til tekin var sú ákvörðun að skella sér í opnun ónefndrar verslunar sem mér fannst bara snilldarákvörðun. Skella sér í smá sjoppíng áður en haldið var niður í bæ!

Nú einhvern vegin komst ég í fylgd E og M í opnunarteitið. Er ég gekk inn um dyragættina laust því upp fyrir mér að ég væri nú eflaust ekki í góðu sjoppíng formi, allt snérist sem ekki átti að snúast, ég leið um á bleiku skýji, létt á fæti, nánast þyngdarlaus.

Það leið ekki á löngu þar til ég uppgötvaði að hin léttfæta balletdansmær á bleika skýjinu væri eflaust líkari fíli í postulínsbúð.

Braml, brot og skvarl!!...

Með mínum kvenlega glæsileika hafði mér tekist að aflima saklausan jólasvein. Staðráðin í því að borga fyrir misgjörð mína leið ég áfram að afgreiðsluborðinu. Ég var með tvö vísakort, eitt debetkort og pening, ég HLAUT að eiga fyrir brotunum, hugsaði ég og krafðist þess að fá að borga brúsann. Það gekk erfiðlega að sannfæra búðarkonuna sem þó loks gaf sig enda hefur hún eflaust ekki nennt að rökræða við hvítvínsbað. Reikningurinn hljóðaði upp á heilar 490 krónur sem ég borgaði afar sátt. Stórslasaði jólasveinninn var settur í veskið og haldið út í leigubíl sem var allt í einu kominn á svæðið. Við brunuðum í bæjarheimsókn þar sem Beggan var sett í kærkomið kaffibað. Eftir gott og heitt kaffi var ekkert annað en að skella sér á dansgólfið sem við E og M gerðum með svaka stæl!

Stelpur, takk fyrir skemmtilega kvöldstund, takk fyrir að taka mig með, takk fyrir að hafa ekki yfirgefið mig og takk fyrir að koma mér heim!

Takk! : *

5.12.07

Jólabarnið er vaknað eftir langan dvala

Ég er búin að laga til og henda öllu drasli inn í þvottahús svo ég geti nú skoðað það ef ég hef ekkert betra að gera. Því drasli má ekki henda..nei nei nei... það þarf að flokka. Sumt fer í Góða hirðinn, annað í Rauða Krossinn, svo er það pappírsgámurinn, blaðagámurinn og allt annað í ruslið. Sorpa verður heimsótt á næstum vikum ef bíllinn minn þolir að bera allt þetta draslerí. Það er allt fínt og flott enda hef ég nú haft næstum þrjá mánuði til hreingerningastarfa :)

Jólabarnið er komið í ham ( þrjár vikur síðan það gerðist ) og geri ég vart annað en að drekka malt og appelsín ( úr glerflöskum því það er best ) og hlusta á Pottþétt Jól. Ég er búin að skreyta húsið með grænum greinum, draga fram allt glitrandi glingur, kveikja á öllum þeim seríum sem hægt er að tengja í tenglana, kaupa kerti og hnetur, jólapappír, merkisspjöld og jólakort, skrifa jólagjafalistann, jólakortalistann. Jólatréið skartar sínu fegursta, ofhlaðið að vanda en svo undurfagurt að ég nenni stundum ekki að fara að sofa á kvöldin.

Lífið er bara dásamlegt! Ég á eftir tvær vikur í vinnunni og eftir 10 daga ætla ég í sjálfskipað jólafrí frá eilífðarverkefninu mínu. Ég er eiginlega viss um að ég eigi eftir að fá Dr. nafnbótina út á það ... sé þetta alveg fyrir mér...

,, Þvílíkt úthald, þvílíkt hugmyndaflug, þvílík vinna...þú þarft ekkert að fara í Dr. nám...þetta verk er DR-VERKEFNI!!!, .....hmm...þvílíkt bull.

Snúum okkur aftur að hinu góða...jólin...jólin..jólin... Þarnæsta vika verður yndisleg í vinnunni en þetta árið fæ ég að dansa á kaupi í kringum jólatré. Það er ansi langt síðan ég hef dansað í kringum annað tré en mitt. Ég verð nú að viðurkenna að ég hef aldrei verið á kaupi áður við þá iðju. Þessa sömu þarnæstu viku fæ ég að klæðast jólahúfu í HEILA VIKU og skreyta mig öllu því jólaglingri sem ég á , snjókarlabolir, jólasveinasokkar, jólasveinalopapeysa, blikkandi jólasveina eyrnalokkar, hreyndýraeyrnaskjól, jólabjöllunælur, jólaúr og og og blikkandi snjóbolta eyrnaskjól. Loksins fær mitt innra jólabarn að lýsa skært og það ...var ég búin að segja það..
Á KAUPI!

Já...lífið er dásamlegt ;)