28.2.05

Þriggja ára meðganga Berglindar
Það er sama hvert ég horfi það eru bara allar konur barnshafandi, ófrískar, óléttar,með böku í ofninum...Þær eru bókstaflega út um allt!!!
Mér finnst þetta bara ógeðslegt og legg til að það verði stofnuð einhver samtök til þess að hindra þetta fár! Eflaust finnst flestum þetta vera eðlilegur gangur lífsins...fyrir mér er þetta einfaldlega bara offjölgun og of mikið álag FYRIR MIG....
Jamm..Þið lásuð rétt...álag fyrir MIG...Því þessar KONUR eru kunnugar mér og sem eðal vinkona þeirra þá ÞARF ÉG að ganga í gegnum þetta ferli MEÐ ÞEIM ÖLLUM....

Þessa dagana er ég beintengd Brynku verðandi ofurmömmu og mér finnst hún bara sleppa allt of vel við óléttuna...ég fæ ógleðina, ég fæ bakverkinn, það er ég sem ligg andvaka á nóttunni með eymsli í brjóstunum,pirruð í kroppinum,það er ég sem fæ nett áfall og hef áhyggjur af hækkandi blóðþrýstingi þegar HÚN étur lakkrís eins og hún fái borgað fyrir það, það er ég sem hef áhyggjur þegar HÚN vakir frameftir nóttu og vill ekki fara að sofa og síðast en ekki síst þá er það ÉG sem þarf að útvega henni óléttufatnað af því að hún ætlar bara að fitna og hafa það kósí næstu mánuði... ...ÉG...Og hvað fæ ég að launum!!!...Jú...aðeins 33,33333% eignarhlut í tilvonandi barni.....
Okey..ein ólétta ætti svo sem ekki að skaða neinn...en við erum að tala um MARGAR ÓLETTUBUMBUR og allar virðast þær vera beintengdar á MIG...Ég get svo svarið það að ég tel mig hafa fundið fyrir sparki í eigin bumbu í kvöld!!...

Nú það er augljóst að ég hef miklar áhyggjur af gangi mála sérstaklega í ljósi þess að ein óléttan bættist við skarann í síðustu viku...og það er engin SMÁ ólétta sko...Því hin verðandi ofurmamma er kunnug fyrir það að ganga frekar erfiða meðgöngu. Eins og næmni mín er í dag þá hef ég af þessu miklar áhyggjur enda í fullu starfi og námi og hef sko engan tíma til þess að vera að óléttast þetta og erfiðast og uppskera svo ekki neitt nema vanlíðan....fæ ekki einu sinni að PASSA (hef að vísu sett fram þá kenningu að foreldrar hræðist að leyfa mér að passa af ótta við að börnin taki ástfóstri við mér... því ég er besta mamma í heimi..jamm).

En nóg um það....Ég vil hér með mótmæla þessari óléttutísku og biðst undan að fleiri bætist í hópinn því ég tel að þessi að verða þriggja ára meðganga mín sé engan vegin eðlileg...

21.2.05

Vetrarhátíð!!...My..ass..
Þrátt fyrir tímaleysi dauðans þá ákvað ég að reyna að finna smugu til þess að njóta þó ekki nema einnar sýningar á þessari árlegu hátíð vetrar. Enda hef ég sem skattgreiðandi fyllilega greitt fyrir þessa uppákomu og því ekki úr vegi að fá eitthvað fyrir sinn snúð.
Ég var fyrir LÖNGU búin að stúdera dagskrána og þrátt fyrir að vera vinna alla þessa daga er hátíðin var haldin þá hélt ég alltaf í vonina.Og jú...vonin varð að veruleika...ég GAT jibbíí....skoðað eitthvað á milli 19-23 á laugardagskveldinu.

Fremst í broddi ágætrar fylkingar var haldið af stað upp í Perlu á sögusýningu en þar átti einmitt að hefjast leiðsögn um safnið klukkan 19. Er þangað var komið var augljóst að ekki yrði mikið um neina leiðsögn þar sem í Sögusafninu var eitt stykki EINKATEITI með viðeigandi vínglösum. Nú frekar hissa leit ég inn fyrir dyrargætt safnsins og hitti þar fyrir bardömu sem tilkynnti mér að SAFNARDAGURINN HEFÐI VERIÐ Í GÆR....!!!
Ég var bara orðlaus..enda taldi ég að safnadagurinn væri allir þrír dagarnir. En það er víst eingöngu við mig að sakast varðandi þann misskilning. Nú þá var bara að rifja upp hið snarasta hvernig dagskráin hefði litið út....Þar sem ég mundi bara eftir einhverju í Húsdýragarðinum þá var farið þangað í snarhasti...komum allt of snemma...og ekkert í gangi. Ég mundi jú að eitthvað átti nú að vera að gerast í Skautahöllinni svo ferðinni var haldið þangað. Jújú...þar voru svona 12 hræður fyrir utan íshokkíleikmenn sem voru að hita upp fyrir leik en hann átti ekki að byrja strax. Nú voru góð ráð dýr. Áttum við að hanga og horfa á ísbílinn hreinsa ísinn eða gera eitthvað annað? Annað var fyrir valinu og fylkingin yfirgaf höllina. Nú úti var byrjað að rigna...en engu að síður var sameiginleg ákvörðun tekin á staðnum og ákveðið að skella sér í garðinn góða í von um að hitta fyrir nokkur indæl dýr. Fyrst dýra hittum við seli sem eru indælustu dýr jarðar. Þau kinkuðu kolli til okkar frekar ósátt við hlutskipti sín í pínulitlum drullupolli. Áfram var förinni haldið í leit að fleiri dýrum en þau voru hvergi að finna utandyra heldur harðlæst inni enda laugardagskvöld....minn misskilningur. Ég hélt í ALVÖRUNNI að dýrin yrðu til sýnis þar sem jú garðurinn átti að vera opinn en það var víst ekki. Enn og aftur var við minn misskilning að sakast. Nú við gengum áfram í rökkrinu og eltum kertaljósin sem lýstu upp göngustíginn. Stundu seinna vorum við víst komin að AÐALSTAÐNUM sem var nokkurs konar kaffitería og viðhengi hennar var tjald. Sem samt loksins komin á leiðarenda í eitthvert tjaldteiti. Okkur leist nú ekki illa á það. Þegar inn var komið tóku á móti okkur nokkrar hræður ( einar 7 ) sem auðvitað litu til okkar furðulostin. Í þessu tjaldi áttu að hefjast TÓNLEIKAR. Hálf vandræðaleg stóðum við þarna tvístígandi…eigum við?...Eigum við ekki að setjast á meðal þessara 7 og hlusta á Sálma? Enn og aftur var mikilvæg ákvörðun tekin og þríeykið flýtti sér út úr viðhenginu staðráðið í að reyna að gera eitthvað gott úr þessu kveldi.
Við brunuðum í bæinn skelltum okkur á Lífræntkaffihús, sötruðum kakó og hneyksluðumst á þessu frekar ömurlega plani leiðsögumannsins (ég) sem hafði sko alls ekki staðið sig í stykkinu.

19.2.05

Ég er EKKI að standa mig í þessu bloggeríi....skýringin er án efa sú að ég er að skrifa alla daga og hef vart undan við að klára þessar mis-skemmtilegu heimaverkefni.
Hefðbundin vinnuvika í skólanum eru 15 blaðsíður um fjölmiðla, svo bætast við a.m.k. 2-3ja síðu verkefni um eitthvað voða viturlegt eins og EFNAHAGSÁSTAND ÍSLANDS....Og þetta eru bara skylduverkefnin nenni ekki einu sinni að telja upp stóru verkefnin sem ég á að vera að vinna í á hverjum degi.
Svo má ekki gleyma öll þessi blogg sem ég er áskrifandi af og það er bara fullt starf að fylgja þeim skrifum eftir, nú svo þarf að skrifast á við pennavinina, múttuna í usa og systuna í rússalandi...S.s..Berglind er voða voða löt

12.2.05

Á veraldarflakki
Ótrúlegt hvað þessi netheimur er lítill!
Ákvað að gera smá tilraun og hún tókst.
Tilraunin gekk út á nokkuð sem maður gerir ansi oft þegar maður hittir fyrir nýja manneskju.
Það er að finna einhvern einstakling sem við þekkjum sameiginlega. Veit ekki afhverju þetta er gert...eflaust eitthvað í íslensku genunum. Nú leið mín lá inn á síðu Ásu Láru og þaðan yfir á síður brósa hennar. Á þeirri síður fann ég áhugavert nafn hennar Ljúfu sem átti link inn á Nornasveiminn og þar sem ég hef alltaf talist til norna þá lá leiðin beint þangað inn. Þar hitti ég fyrir ansi áhugaverðan erkióvin framsóknarmanna sem gladdi mitt litla hjarta enda ætti sá flokkur að vera löngu afskrifaður. Nú Hnakkus hafði link inn á Þrengslin sem var ansi áhugavert nafn og því tilvalið að forvitnast frekar um þann einstakling og hvað fann mín þar....jújú...link inn á gömlu vinkonuna hana Hallveigu!!!.....Já! missjön acomplíst....Voða kát með þessa merkilegu tilraun á föstudagsnóttu komst ég að því að þetta væri í raun og veru helv...langur listi ( miðað við ættartengls og höfðatölu þessa ástkæra skers) og ég var viss um að ég hlyti að finna einhvern sem ég þekki í færri tilraunum. En þar sem klukkan var orðin ANSI margt þá lét ég staðar numið í þetta sinn. Ég mun ótrauð halda áfram þessari tilraunastarfssemi minni og tileinka næstu helgi frekari vettvangsferð á netinu í leit að kunnugum sálum.
s.s. Túbícontinjúd pistill.....

11.2.05

Er ég báslaus belja...?
Furðulegt hvernig við mannverurnar þurfum alltaf að vera að hola okkur/eða aðra niður í ákveðna ,,bása”....jamm BÁSA...Við tökumst á við ólík hlutverk daglega svo sem að vera börn foreldra okkar, barnabörn, systkin, vinir, makar,vinnufélagar, skólafélagar, kunningjar,o.s.frv... og þar með erum við ósjálfrátt staðsett í ákveðnum básum. Það eru til dæmis til foreldrabásar, parapásar, jeppabásar og svo má nú ekki gleyma aðal básnum sem er aldursbásinn...
Um daginn komst ég að því að ég er í frekar glötuðum bás...ja eða jafnvel bara básalaus. Ég er kona einsömul, án barna, á ekki eigið húsnæði né bíl (JEPPA...hint hint...) og ekki er ég í 100% vinnu... Sökum aldurs þykja mín hlutskipti frekar básaóvæn. Vegna alls þessa fæ ég ekkert alltaf að leika mér með ólíkum básabeljum...sem er frekar glatað....Það vill nefnilega oft verða þannig að beljur sem eiga eitthvað sameiginlegt hópa sig saman....í bása.....
Jæja þessar fáu sálir sem hafa nennt að lesa pistilinn eru eflaust að velta fyrir sér hvaða belju og básatal þetta sé eiginlega á mannskepnunni henni Berglindi en þannig er mál með vexti að ég er að uppgötva að með hverjum deginum sem líður þá er ég að fjarlægast hina ýmsu bása. DÆMI...okey...alveg sjálfsagt...hér koma nokkur.

Vinahópurinn minn fjölgar sér svo ört að ég er löööngu búin að heltast úr lestinni hvað varðar bleyjuskipti,pelamjólk,leikskólavandræði,húsnæðiskaup,matarinnkaup fyrir fleiri en einn o.s.frv... Mín hversdagsleg verkefni snúast meira um það að komast lífs af í þessu þrælanámi mínu, mæta í vinnu á réttum tíma og narta í ristað brauð... Svo það er augljóst að þarna mætist beljur í ólíkum básum.

Innan þessa sama vinahóps eru jeppakarlar og jeppakerlingar...ég er meira svona kerling svo ég á lítið sameiginlegt með áhugamálinu vegna eins stórs vandamáls hvað það varðar....Mín á ekki jeppa!. S.a...rangur bás fyrir Beggu belju ... og gömlu góðu vinkonurnar týndar og tröllum gefnar : Þ búnar að hreiðra um sig í BÁSNUM.

Í vinnunni á ég ekki mikla samleið með annars yndislegum samstarfsfélögum, enda lítið um fólk hittist eftir vinnu þar sem allir í dag eru í fjölskyldubásnum.

Í skólanum er klikkað að gera og flestir í þessum margumtalaða fjölskylduBÁS sem MÍN er einmitt ekki í. Svo það er frekar lítið um að við námsfélagarnir hittumst til annarra hluta en að sinna fjölda verkefna sem hellt er yfir okkur. S.s. saman í pás í verkefnavinnu en að henni lokinni þá snúa allir í sinn rétta bás eins og vel upp aldar beljur....Það er ekkert svo sem rangt við það...en ég bara finn engan í minn bás...svo þar má ég kúra ein fúl.

Hmm...p.s...Kannski er ég meira þessi lífrænt ræktaða belja en þær eru jú báslausar...jamm ætli það ekki bara....Hér með auglýsi ég eftir lífrænt ræktuðum beljum sem eru til í að spranga um og óþekkast...jafnvel heimsækja og hrekkja beljurnar í básunum ;)

Jæja... þessu bása og beljubauli er hér með lokið...

2.2.05

Jæja góðir hálsar!
Berglind er komin úr fríi.....
Ættingjar og vinir flýja land og eftir situr Berglind ein á skeri.
Nýjasti meðlimur þessara íslensku útrásar er hin ástkæra systir mín, ofurkvendið Katrín hin mikla. Ég ráðlegg sem flestum að fylgjast með ævintýrum hennar á þessari slóð. Hver dagur í lífi skottunnar er fullur af alls konar uppákomum enda lífleg manneskja með eindæmum,hnyttin og þrjósk eins og sönn rauðka.S.s spenna og læti á rússablogginu næstu mánuði.