26.3.03

Fleiri skiptinemasögur.....



Fyrir nokkrum árum dvaldi ég eitt ár í Chile S-Ameríku sem skiptinemi.
Það var einstök reynsla fyrir mig víkinginn að fá að dveljast á þessum suðrænu slóðum og upplifa frábrugðið menningarfélag.

Ég hafði gert mér ýmsar hugmyndir um land og þjóð og byggði mikið af þeim hugmyndum á þeirri staðreynd að íbúar landsins væru kaþólskir. Ég gerði mér fyllilega grein fyrir því að ég heiðinginn yrði að hegða mér samkvæmt þeirra trúarlífi og menningu og var strax ákveðin í því að aðlagast.

Ég gekk í blandaðann skóla og unni mér vel á meðal félaga minna. Einu sinni á ári er haldin samkeppni á milli bekkja. Felst keppnin í því að valin er ein drottning og einn kóngur hvers bekkjar fyrir sig sem þurfa svo að leysa ýmsar þrautir af hendi. Það var ekki spurning hver ætti að fara fyrir hönd bekkjar míns og var fljótlega skipulögð nefnd sem tók að sér að undirbúa mig fyrir allar fyrirhugaðar þrautir. Skammur tími var til stefnu og hófst því strax kennsla m.a í eldamennsku,á þjóðarrétti Chilebúa, þjóðdansakennslu svo eitthvað sé nefnt.

Ég var orðin vel undirbúin fyrir keppnina þegar ég var eitt sinn spurð hvort ég ætti ekki örugglega svartan sundbol þar sem liturinn yrði að vera svartur,einkennislitur bekkjarins. Vildi ég fá frekari útskýringu á því hvað ég hefði að gera við sundbol í þessari keppni og innan skamms var ég mér sagt að til þess að hægt væri að meta sigurvegara að fullu þá yrði ég að koma fram í sundbol.

Ég var orðlaus og strax ákveðin að ég skyldi ekki koma fram í sundbol og valsa um svið og láta dæma mig. Krakkarnir skyldu engan vegin viðbrögð mín og fannst alveg sjálfsagt að framkvæma þennan þátt keppninnar.

En ég var föst fyrir og leið hálf asnalega að það væri ÉG hin frjálslyndi vesturlandabúi sem væri að mótmæla,spéhrædd við að koma fram fyrir allan skólann á sundbol einum klæða. Mér fannst að hinar siðvöndu og prúðu kaþólsku stelpur ættu frekar að vera í mínum sporum en svo var ekki og málið varð æ flóknara.

Kennarar tóku mig á tal og reyndu að sannfæra mig um að sundbolur væri hið eina rétta og meiri að segja skólastjórinn reyndi að hafa sín áhrif en allt kom fyrir ekki ég var staðföst á minni fyrri ákvörðun. Mér fannst þetta allt vera orðið hálf kjánalegt og var viss um á tímabili að allir væru svona ákveðnir í að sjá mig í sundbol á sviði þar sem ég væri hvít.....

Mér leið illa því engin skyldi mitt viðhorf. Ég var ein á móti öllum hinum. Fljótlega var þetta komið út um allan skólann og svo út fyrir skólann. Ég bjó í litlum bæ svo sagan fór fljótt um og fannst mér ég varla geta farið um götur án þess að fólk væri að stara á mig. Ýmsar sögusagnir fóru á kreik en ekki allar þeirra náðu til mín. Ég átti að hafa stórt ör á lærinu, vera mjög loðin á fótleggjum. Sumir sögðu að allur líkami minn væri svo "skemmdur" af freknum að ég vildi ekki sýna mig. En fyrir þeim voru freknur afbrigðilegt fyrirbrigði.

Einn daginn rétt fyrir keppni fór ég inn á skrifstofu til skólastjórans þar sem ég ræddi við hann og umsjónarkennara minn og sagði þeim aðég ætlaði ekki að taka þátt í keppninni þar sem enginn vildi koma til móts við mig og skilja að ég hefði ekki áhuga á að koma fram í sundbol þetta væri ekkert líkamlegt heldur eingöngu hugsjón mín að valsa ekki fáklædd fyrir framan ókunnugt fólk og láta meta líkama minn. Þetta hefur án efa verið barátturæða því loksins skyldu þeir mig og sögðu mér að ég þyrfti ekkert að hafa frekari áhyggjur. Ég mætti mæta í leikfimisfötum mínum, hjólabuxum og stuttermabol og sleppa við þenna lið keppninnar. Ég var hissa á þessum breytta hugsunarhátti en glöð yfir því að nú loksins skyldi mig einhver.
Ég var ekki komin langt frá stofu kennarans þegar hljómaði í kallkerfi skólans....

“ Christína"..... mun ekki koma fram í sundbol af trúarlegum ástæðum”

Ég ákvað ekkert að mótmæla frekar enda mjög sátt við niðurstöðuna. Stuttu seinna komu margir til mín og vildu fræðast nánar um þessi trúarbrögð mín og spurðu afhverju ég hefði ekki sagt neitt um það fyrr því þau hefðu svo sannarlega skilið það viðhorf mitt. : Þ

15.3.03

Hjálækningar....


Þegar ég var skiptinemi út í Chile á sínum tíma bjó ég hjá fjölskyldu sem var gefin fyrir óhefðbundnar lækningar sem hún sótti til eldri fræða Mapuche indíana. Flestar hjálækningar eru ósjálfrátt bendlaðar við menningu indíánanna og þá á frekar neikvæðan máta. Mapuche indíánar búa á verndarsvæðum í suðurhluta landsins og eru upprunalegi kynstofnin sem þar bjó áður en Spánverjar og aðrir þjóðarhópar yfirtóku landið. Þeir eru í miklum minnihluta í Chile og er litið á þá sem "útlendinga" þrátt fyrir að þeir eiga að öllu leyti meira tilkall til landins.

Fabiola,dóttirin á heimilinu, hafði átt í miklum erfiðleikum í sínum ástarmálum og meðal annars haldið við giftan mann sem var ekki vel séð af fjölskyldu hennar og var alltaf talað um að Fabiola væri veik og gæti ekki ráðið við þetta sjálf þar sem neikvæð öfl hefðu tekið sér bólfestu í líkama hennar. Þetta væri í raun og veru ekki í hennar höndum og þyrfti því að hreinsa líkama hennar.
Var ákveðið að leita ráða til “Systurinnar” sem var uppfull af alls konar ráðleggingum og læknisráðum. “Systirin” hafði það hlutverk að flakka á milli þorpa og deila af visku sinni.

Snemma einn morguninn fór móðirinn af stað til “Systurinnar” en erfitt var að fá tíma hjá henni og nauðsynlegt að fara snemma af stað vegna þeirra löngu biðraðar sem myndaðist alltaf fyrir utan húsið hennar.
Seinna um kvöldið kom móðirin aftur heim og tók Fabiolu á tal. Mikil leynd hvíldi yfir erindagjörðum móðurinnar og var ekki rætt um það á heimilinu.

Stundu seinna kallaði hún á mig og sagði að í kvöld myndi Fabiola læknast og ég þyrfti að taka þátt í þeirri athöfn með henni þar sem við sváfum í sama herbergi. Vorum við látnar fara í sturtu eftir kvöldmat en á meðan var skipt á rúmfatnaði hjá okkur. Eftir sturtuna fórum við inn í herbergi og þar áttum við að leggjast upp í rúm undir hvítt lak,naktar og opna herbergisgluggann upp á gátt.

Andar áttu að koma um nóttina meðan við værum sofandi og hreinsa Fabiolu af syndum hennar og gera henni kleift að hefja nýtt og betra líf.
Athöfnin var töfrum líkust og um miðja nótt voru ill álög dregin í burtu úr líkama hennar. Neikvæð orka og óæskilegar þarfir voru hraktar af brott. Á meðan að líkami hennar svaf ,umvafinn hvítu laki, gekk andi hennar í gegnum hreinsunareldinn.

Í dag er Fabiola hamingjusamlega gift móði. Hvort það sé "Systurinni" að þakka eða Fabiolu sjálfri sem batt enda á samband sitt við gifta manninn veit ég ekki en að taka þátt í þessari athöfn með Fabiolu var ógleymanleg og skemmtileg lífsreynsla.......

Hmm...það mætti kannski taka þessa athöfn til athugunnar hér á landi í þessari brjálæðu framhjáhaldagleði landans.....


7.3.03

Karlmennskulegir leikir



Litlir og stórir,ungir og aldnir karlmenn taka sér ýmsilegt fróðlegt fyrir hendur......á meðan við dömurnar leikum okkur í Barbie og svo síðar í mömmuleikjum dunda margir karlmennirnir sér við karlmennskutákn sitt á einn eða annan máta...
Í lítilli rannsókn sem ég gerði fyrr í vetur komst ég að því að eiginlega flestir karlmenn þekkja til "Sprænuleiksins" svokallaða
“Sprænuleikurinn” gengur út á það að reyna að pissa sem hæst upp á veggi húsa og þannig merkja sitt svæði ( svona eins og hundar :Þ ) Yfirleitt eru nokkrir strákar sem taka þátt í leiknum í einu. Þeir raða sér upp línulega og reyna að pissa sem hæst upp á húsveggi. Það virðist vera mjög mikilvægt að vera með fulla pissublöðru í leiknum þar sem sprengikrafturinn getur áorkað ýmsu sérstaklega fyrir litla tappa þar sem sigurvegarar leiksins eru yfirleitt þeir hávöxnu. Nýbyggingar eru hentugur vettvangur til þessa leiks þar sem grá steypa auðveldar leikmönnum að sjá pissumerki hvers og eins á þurri steypunni sem litast svo dökkum lit við pisserí leikmannanna. Stúlkur eru víðsfjarri þessu gamni og er sérstaklega passað upp á það þegar leikurinn er leikinn á skólalóðinni að þær séu ekki nálægt.
Svo þegar litlu tapparnir verða kynþroska taka við svipaðir leikir í annarri útfærslu...en í stað þvags snýst leikurinn um annan vökva.

Merkilegt alveg......