26.1.08

Kveðja frá St. Pétursborg

Klædd íslenskri flíspeysu- og buxum, þykkum göngusokkum, fjallaskóm og dúnúlpu og með loðna Rússahúfu á höfði arkaði ég út í mannmergðina. Ég var viss um að ég myndi falla vel inn í fjöldann enda var megið markmið dagsins að heimsækja útimarkaðinn Údélnaja þar sem enginn mátti vita að ég væri ekki Rússi.

Kvöldinu áður hafði ég setið með vodkaglas og ,,sakuski,, ( vodkasnakk sem samanstendur af olivíum, saltkexi og osti ) í hendi og fengið fínar ráðleggingar frá innfæddum hvernig ég ætti að bera mig. En það vita allir að í Rússlandi þá borgar þú MEIRA ef þú er útlendingur. Innfæddir voru á því að útlitslega séð þá yrði þetta ekkert vandamál, ég mætti bara EKKI tala. Eftir nokkuð mörg vodkaglös var ákveðið að ég skyldi þykjast vera mállaus og ef ég sæi eitthvað sem mig langaði til þess að kaupa þá ætti ég bara að kinka kolli til Kötu systur sem myndi þá leggja sig alla fram í prútti dagsins.

Þegar ég var á leiðinni í neðanjarðarlestinni á markaðinn fannst mér sem allir væru að horfa á mig en ég var fljót að gleyma þessum vangaveltum er á markaðinn var komið því það var svo margt að sjá. Údélnaja er ÚTImarkaður í sinni ýktustu mynd. Hann liggur við lestarteina í úthverfi St. Pétursborgar og þar má finna allt sem hugurinn girnist... á góðu verði EF þú ert Rússi. Údélnaja þýðir ,, Héraðið í fjarska,, sem liggur þó aðeins 12 km frá St. Pétursborg.

Við systurnar gengum hratt meðfram sölubásunum því stefnan var tekin á uppáhaldsstaðinn hennar Kötu. Er þangað var komið mátti sjá eldra fólk, bæði menn og konur, sem voru að reyna að selja þá furðulegustu hluti sem ég hef á ævi minni séð. Hlutirnir lágu ofan á plastdúkum á jörðinni nú eða jafnvel bara ofan á jörðinni í snjódrullunni, allir þaktir hvítum snjó, því það hafði jú byrjað að snjóa. Þarna var hægt að kaupa fálátar gamlar rússneskar ,,blautar,,bækur, brotna vasa, úr, sturtuhausa, ryðgaðar skrúfur, hermannaorður, jólaskraut, lykla, ryðguð skæri, notuð barnaföt á kafi í snjó, leikföng, hljóðfæri, hjól, lampaskerma, rafmagnstæki og auðvitað allt blautt eða ryðgað og eflaust margt bilað. Þetta var furðulegt samansafn af skrítnum hlutum og ég endurtek enn og aftur...ALLT Á KAFI Í SNJÓ!

Eftir ágætis rölt á milli plastdúka í drulluslabbinu fann ég djásnið sem átti eftir að verða mitt. Katan stóð sig í sínu og eftir skamma stund var ég orðin eigandi af eldgömlu rússnesku jólaskrauti frá 1950. Afar sælar og sáttar eftir kaup dagsins héldum við til baka í átt að lestarstöðinni. Er við vorum sestar inn í lestina uppgötvaði ég jú að það voru allir að horfa á mig. Þetta var ekkert bull í mér fyrr um daginn. Það voru ALLIR að glápa á mig! Ég fór að bera þetta undir Kötu og eftir að hún hafði grandskoðað mig þá var hún viss um að vera komið með svarið. Það var Rússahúfan, Rússar klæðast ekki húfunum sínum nema í -10 gráðu frosti en hitastigið var eflaust rétt við frostmark í dag. Þegar ég leit í kringum mig sá ég að ég var eina manneskjan í lestinni sem var með húfu. En ekki nóg með það að vera hallærislegur útlendingur með Rússahúfu á kollinum því Katan tjáði mér að húfan mín væri KARLAHÚFA.

Heima á klakanum er þetta ekkert mál, allir klæðast því sem þeir vilja klæðast hvort sem flíkin er merkt kk eða kvk en hér úti gera menn og konur greinarmun. Konur eru konur og karlar eru karlar. Rússneskar konur mega eiga það að þær eru ótrúlega kvenlegar og rússneskir karlmenn mega eiga það að þeir eru óttalega hallærislegir. Maður sér ekki eina rússneska konu í flísfötum eða gönguskóm þrátt fyrir slabb og snjókomu. Þær eru allar á háum hælum, klæddar eins og út úr nýjasta tískublaði, óaðfinnalega ýkt málaðar í skvísujökkum og pinnahælum.

Ég verð að viðurkenna það að á leiðinni heim leið mér hallærislega ókvennleg í flísfötunum mínum með karlahúfuna á kollinum. Það skiptir ekki máli hvernig viðrar á morgun ég mun setja á mig appelsínugula augnskuggann, skella mér í háu hælana og fara í pils. Því jú það skiptir máli ...ef maður vill ekki draga of mikla athygli að sér að vera EINS og hinir...

Knús og kossar

11.1.08

Nothæfar upplýsingar!

Það er alltaf gaman að kynnast sjálfum sér örlítið betur.
Hér hafið þið 40 ítarlegar upplýsingar um moi.

1. Hvar ertu?
Sit heima hjá mér á rúminu með tölvuna fyrir framan mig.

2.Hvernig eru buxurnar þínar á litinn?
Bláar náttfatajoggingssss

3. Hvað ertu að hlusta á þessa stundina?
Þögnina... ég heyri í bílaumferð, fréttatímanum á efri hæðinni og svo heyrist óhljóð í tölvunni minni, hún er eitthvað að rembast.

4. Hvað eru 4 síðustu stafirnir í símanúmerinu þínu?
4818

5. Hvað var það síðasta sem þú borðaðir?
Hmm... hunangsmarineraður lax með salati og hrísgrjónum...hrikalega gott.

6. Ef þú værir vaxlitur hvaða litur værir þú ?
Gylltur

10. Hvernig er peysan/bolurinn þinn á litinn?
Svartur hlýrabolur

11. Líkar þér við persónuna sem sendi þér þetta?
Játs, hún er mitt hold og blóð, það er enginn í heiminum eins tengdur mér og hún.

12. Hvernig hefur þú það í dag ?
Mér líður vel, það er föstudagur!

13. Uppáhalds drykkur?
Noni, get ekki sagt annað því það er það dýrasta sem ég læt inn um varir mínar þessa dagana.

14. Besti áfengi drykkur?
Gin og Tonic, heilt sítrónutré og klakar... nammi namm...

15. Uppáhaldsíþrótt ?
Að lyfta glasi nú eða glösum sem er miklu erfiðara

17. Tekur þú lýsi?
Játs, 2 hákarlalýsispillur OG stór matskeið af þroskalýsi. Daglegur viðburður síðan í síðustu viku. Ég þarf á Omega3 að halda fyrir heilann minn sem er afar slappur.

19. Síðasta tímarit sem þú keyptir?
Ehhh.. : ) Sagan Öll, Vikan og Séð og Heyrt, allt keypt fyrir Kötuna sem þráir að lesa íslensk tímarit.

20. Systkini aldur og nafn?
Katan sem er 30 ára, Regína 21 árs og örverpið, 2m - 4 cm langi snáðinn hann Haraldur 19 ára.

21. Uppáhalds mánuður?
Desemeber... jólin jólin allllllssstaðar...

24. Uppáhaldsdagur ársins?
Aðfangadagur

25. Ertu feiminn að bjóða einhverri/jum út?
HA...ég? *Roðn*

26. Hvort líkar þér betur hryllingsmyndir eða góðar myndir?
Góð skilgreining, því hryllingsmyndir eru EKKI góðar myndir... Ég vel góðar myndir frekar ( stolið svar frá Lilju frænku )

27. Sumar eða vetur?
Ég er vetrardrottningin...

28. Knús eða kossar?
Já takk!

29. Sambönd eða einnar nætur gaman?
Já takk!

30. Súkkulaði eða Vanilla?
Jarðaber : )

31. Viltu fá þetta sent til baka af vinum þínum?
Já auðvitað. Þar sem ég hef takmarkaðan tíma fyrir vinaknús þessa dagana væri fínt að kynnast þeim frekar í gegnum tölvuna.

32. Hverjir svarar þessu örugglega?
Vinir mínir vonandi, ef ég á einhverja eftir, og ef ég sendi þetta til þeirra.

33. Hverjir svara þessu örugglega ekki?
Þeir sem fá þetta ekki sent til sín.

34. Í hvaða landshluta býrð þú?
Það er gott að búa í Kópavogi, tróni á toppnum þar!

35. Hvaða bók ert þú að lesa núna ?
Hnífur Abrahams eftir Óttar M. Norðfjörð

36. Hvernig er músarmottan þín á litin?
Ég á bara eina músarmottu sem er hnotuviður og er notuð sem skraut á borði.

37. Skemmtilegasta spilið?
Matador og og og Viðskiptaspilið. Ég er alltaf stóreignamanneskja í þeim spilum.

38. Hvað gerðir þú af þér í gærkvöldi?
Ég fór í bíó með Lady Marý og skemmti mér vel.

39. Hver er þín uppáhalds lykt?
Lyktin á veggnum í kjallaranum á Laufvangnum, held það hafi verið olíulykt, hmmm....nammi nammi...mig langaði alltaf að sleikja veggina.

40. Hvað er það fyrsta sem kemur upp i huga þér þegar þú vaknar á
morgnana?

Nýr dagur alltaf sama martröðin aftur og aftur....eða Hvar er ég?? ( a la Mjallhvít)

Þar hafið þið það...

5.1.08

Nýarsgjöf

BERGLIND BULLAR ÓTT OG TÍTT
BULLAR ALLA DAGA
AÐ BULLA ER HENNI EKKERT NÝTT
BEGGA ER BULLU SAGA


Ég fékk þessa kærkomnu vísu í nýarsgjöf og vil gjarnan leyfa ykkur að njóta hennar með mér.

Kveðja
Berglind

2.1.08

Gleðilegt nýtt ár... þetta ár er MITT ár!

Ég steig á stokk um áramótin, eða öllu heldur á einn af rifnu flugeldakössunum í götunni hjá pabba, og fór með heit mín fyrir árið 2008! Heitin voru strengd í einveru undir hávaða flugeldanna sem lýstu upp himininn. Í hávaðanum mátti greina 1812 Overtue Tchaikovsky sem ómaði út um gluggann. Þetta tónverk er hreint út sagt stórkostlegt og var samið fyrir 128 árum síðan og fjallar um sigur Rússa á Napoleon.

Frá því ég man eftir mér hefur þetta 15 mínútna langa verk verið spilað rétt fyrir miðnætti á mínum bæ og náð hápunkti á slaginu tólf, er flugeldasprengingar ná hámarki. Á þeim tímapunkti í verkinu má heyra sprengingar úr kanónum, háværar kirkjuklukkur hringja og flugeldar springa. Ég get ekki hugsað mér betri stemmingu til þess að kveðja gamla árið og fagna því nýja.

En aftur að heitunum, þau hafa nú verið innsigluð í huga og hjarta og eins og títt er í dag þá eru þau einkamál og aðeins fyrir mig að hafa gaman af... að fráskildu einu heiti sem ég hyggst deila nú hér á síðunni.

En þannig er mál með vexti að oft líður mér eins og skáldsagnarhetjunni Bridget Jones. Ef ekki væri fyrir þær ágætis bækur og bíómyndir þá hefði ég eflaust sjálf sest niður og skrifað grátlega fyndna bók um eigið ágæti.

Vinir og vandamenn hafa verið duglegir við að benda mér á, með einum eða öðrum hætti, að þjóðfélagsstaða mín er hreint út sagt ömurleg! : )
Ég er þrjátíuogþriggja ára gömul einhleyp kona ( öðru nafni, gott efni í piparjúnku ). Vegna þessa hefur undanfarið verið gefið út ókeypis skotleyfi á mig sem náði áhugverðum hápunkti á árinu sem leið.

Ég get nánast fullyrt að í öllum þeim fjölskylduboðum sem ég fór í á árinu 2007 beindust umræður um mig og mínar ,,aðstæður,, .

- Berglind þú ert of kröfuhörð!
- Ef þig langar til þess að eignast börn þá þarftu að fara að drífa í því heillin, ég heyrði að þrjár
konur af hverjum tíu væru búnar að missa legið fyrir 35 ára aldur!
- Hvernig væri nú að þú tækir saman við X, þetta er fínn strákur, voða góður, þénar vel. Jújú...
ég veit hann burstar aldrei í sér tennurnar og er ekkert sérlega aðlaðandi en þú getur nú kippt
því í lag. Hver kona þarf auðvitað að móta sinn karl!
- Þú þarft engann karl til þess að eignast barn, bara skella sér á djammið!
- Er ekki búið að opna sæðisbanka í Danmörku?
- Berglind mín... hneigist þú að konum?

Ég gæti haldið áfram en læt staðar numið í þessum upptalningum því eins og sjá má þá snýst þetta jú allt um mann og börn... og ef ekki mann þá allavega börn!

Það hefur verið reynt að koma mér saman við menn á aldrinum 19 til 48 ára, sumt auðvitað í gríni en hvað liggur oftast á bakvið grín?
Á bakvið grín liggur alvara lífsins, ég ætti nú að vita það enda búin að skrifa heila ritgerð um viðfangsefnið.

Er ég viðraðaði þetta vandamál við eina góða vinkonu mína sagði hún mér að ég hlyti að bjóða upp á þetta. Ég varð hissa og fór að velta því fyrir mér hvort það gæti verið. Eftir töluverðar vangaveltur komst ég að því að það hlyti eflaust að vera. Ómeðvitað með hátterni mínu gæfi ég höggstað á sjálfri mér og það væri kominn tími til þess að því að taka fyrir slíkt og gera eitthvað í málinu. Ég ákvað því á milli jól og nýár að eitt af heitunum fyrir árið 2008 væri að taka fyrir allar umræður sem snérust að mínu einkalífi.

Mér fannst þetta fínn tími til þess að taka ákvörðunina þar sem aðeins var eftir að fara í tvö fjölskylduboð. Í þessum boðum gæti ég meðvitað fylgst með sjálfri mér og gert smá tilraun fyrir nýja árið. Fyrra boðið gekk ágætlega og afrek þess boðs var ein athugasemd.

En svo kom gamlárskvöld.

Við sátum við fagurlega skreytt borð hlaðið dýrindis dásemdum og við hvern disk lá eitt knall ( svona áramótaskraut sem er pakkað inn eins og karmella og maður þarf að toga í sitthvorn endann á og þá kemur eitthvað dót úr því ) :)

Undanfarin ár hefur verið hefð í gamlársfjölskylduboði að hver og einn fái málshátt sem hann les upp fyrir fjölskylduna. Málshátturinn á að vera á einhvern hátt lýsandi dæmi um þann sem les upp. Í þetta sinn var málsháttur inni í knöllunum. Sem þýðir jú auðvitað að það gat enginn vitað hvað hver og einn fengi. Eftir að allir hefðu opnað sitt knall og lesið upp spekina var komið að mér að gera slíkt hið sama. Ég sprengdi mitt knall og fékk silfraðan fisk og bréfsnepil sem ég opnaði og las upp...

- GOTT EIGA ÞEIR SEM GIFTIR ERU EN GUÐ HJÁLPI MÉR

Athugasemdir þessa kvölds um mitt einkalíf eru óteljandi.

Eflaust get ég stjórnað einhverju varðandi umræður um mitt einkalíf en ekki öllu, það er víst!
En upp á flugeldakassann hef ég stigið og strengt mín heiti... árið 2008 er MITT ár!